Mynd með frétt af vef ASÍ
Kostnaður fyrir eitt barn í skóladagvistun (frístundaheimili) með skólamáltíð og síðdegishressingu er næst lægstur í Reykjanesbæ. Þetta sýnir úttekt Verðlagseftirlitsins á gjöldum fyrir skóladagvistun með máltíðum í 15 stærstu sveitarfélögum landsins.
Gjöldin fyrir þjónustu frístundaheimila með máltíðum í Reykjanesbæ hafa lengi verið með þeim lægstu í samanburði sem þessum. Þrátt fyrir lítilsháttar hækkun milli áranna 2018 og 2019 er gjaldið næstlægst í Reykjanesbæ af sveitarfélögunum 15. Mánaðargjaldið nú er 25.338 kr. en var 24.565 kr. árið 2018, sem gerir hækkun um 3,1%.
Mánaðargjald fyrir skólamáltíðir er einnig í hópi þeirra lægstu en systkinaafsláttur hins vegar lægstur í Reykjanesbæ. Tekið er fram í frétt á vef Alþýðusambands Íslands að einungis sé um verðsamanburð að ræða, ekki sé lagt mat á gæði þjónustunnar.