Magnea sat í bæjarstjórn frá 2010 til dánardags. Ljósmynd: Víkurfréttir
Magnea var fædd 19. apríl 1969, dóttir hjónanna Guðmundar Inga Hildissonar og Bjarnhildar Helgu Lárusdóttur. Systir er Ragnheiður María Guðmundsdóttir. Magnea ólst upp í Keflavík þar sem hún gekk í barna- og grunnskóla og útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1989. Magnea lauk BA prófi í almannatengslum frá háskólanum í Alabama 1994 og mastersprófi í sama fagi frá sama skóla ári síðar. Magnea starfaði sem kynningarstjóri og við almannatengsl hjá Bláa Lóninu frá 1998 til dánardags og tók virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins sem er leiðandi í ferðaþjónustu á Íslandi.
Magnea var mikill áhugamaður um samfélagsmál, sér í lagi skipulags- og umhverfismál og lét sig miklu skipta fegrun bæjarfélagsins. Hún tók virkan þátt í stjórnmálastarfi frá því að hún snéri heim til Íslands að loknu námi og sat í fjölmörgum nefndum og ráðum ýmist sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Reykjanesbæjar eða Bláa lónsins.
Magnea var m.a. varamaður í stjórn Keilis um tíma, varamaður í stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. við stofnun þess og síðar stjórnarmaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sat í stjórn Reykjanes Geopark, í stjórn íslenska ferðaklasans og var um tíma stjórnarmaður í stjórn Festu, lífeyrissjóðs. Hún var varamaður í stjórn HS Veitna frá 2009 og síðan aðalmaður frá 2011 til dánardags.
Magnea sat í stjórn Markaðs- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar frá 2002-2006, var aðalmaður í Atvinnu- og hafnarráði 2006-2010 og í Umhverfis- og skipulagsráði frá 2010 til 2017, þar af sem formaður þess á árunum 2010-2014. Magnea sat í bæjarráði um fjögurra ára skeið, 2010-2014.
Magnea sat sinn fyrsta bæjarstjórnarfund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 29. ágúst 2006 en hún var varamaður í bæjarstjórn kjörtímabilið 2006-2010. Magnea var kjörinn aðalmaður í bæjarstjórn 2010 og sat þar til dánardags. Hún gegndi starfi varaforseta öll árin sem hún sat í bæjarstjórn og stýrði nokkrum fundum bæjarstjórnar. Magnea sat samtals 163 fundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, þann síðasta 20. júní sl.
Reykjanesbær þakkar Magneu góð störf og vottar aðstandendum djúpa samúð.