Hvað er gott við að eldast í Reykjanesbæ? var fyrsta spurningin á Framtíðarþinginu Farsæl efri ár í Reykjanesbæ
Mjög góð þátttaka var í Framtíðarþingi, Farsæl efri ár í Reykjanesbæ, sem haldið var á Nesvöllum í gær. Þar var fjallað um öldrunarmál í víðum skilningi út frá því hvað væri gott við að eldast í Reykjanesbæ, hvernig Reykjanesbær gæti stuðlað að farsælum efri árum og sérstaklega hvernig þátttakendur vildu sjá málefni eldri borgara þróast varðandi búsetu, þjónustu og heilsutengd lífsgæði, þátttöku/virkni og tómstundastarf.
Í lokin var líka velt upp þeirri spurningu hvað við gætum sjálf gert til að stuðla að farsælli öldrun. Að sögn Heru Óskar Einarsdóttur sviðsstjóra Velferðarsviðs spunnust frjóar samræður og margar góðar hugmyndir og ábendingar litu dagsins ljós. „Það kom ekki síður fram að það er margt sem vel er gert í Reykjanesbæ sem mikilvægt er að halda í og hlúa að.“
Það var Ingrid Kuhlman frá Þekkingarmiðlun sem stýrði dagskrá þingsins og mun hún taka saman allar þær hugmyndir og ábendingar sem þar komu fram. „Þessi vinna verður síðan nýtt sem innlegg í þá stefnumótunarvinnu sem Reykjanesbæjar er að vinna að í málefnum aldraðra,“ segir Hera Ósk.
Velferðarsvið Reykjanesbæjar þakkar öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti gerðu Framtíðarþingið mögulegt fyrir þeirra þátttöku og framlag.