Fullorðnir einstaklingar ættu að reyna að fá 7-9 klst. svefn dag hvern. Unglingar þurfa 9-10 klst. svefn og börn allt upp 17 klst. eftir aldri.
Heilsu- og forvarnarvika verður haldin sameiginlega á Suðurnesjum 30. september til 6. október. Heildardagskrá mun senn líta dagsins ljós og verður hún vel sýnileg hér á vefnum. Í Reykjanesbæ er þema vikunnar „Átta tíma svefn a.m.k.“ og eru bæði íbúar og starfsmenn bæjarins hvattir til að huga vel að því. Starfsfólki í Ráðhúsi verður boðið upp á fyrirlestur hjá svefnráðgjafa.
Reykjanesbær er heilsueflandi sveitarfélag. Einn mikilvægasti þáttur heilsu er nægur svefn. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sefur ekki nóg og því vill Reykjanesbær í heilsu- og forvarnarviku minna á mikilvægi átta tíma svefns. Svefn hefur áhrif á heilsu fólks og líðan, andlega og líkamlega. Í nýlegri grein á vef Náttúrulækningafélags Íslands kemur fram að ónógur svefn getur haft í för með sér margvísleg heilsufarsvandamál, eins og:
- Offitu, sykursýki, hjartasjúkdóma, alzheimer og krabbamein.
- Skerta endurheimt og vöðvauppbyggingu.
- Minnkaða getu til að læra nýja hluti og skapa minningar.
- Minni einbeitingu, orku og skilvirkni.
- Ofvirkni og ADHD
Hægt er að kynna sér greinina í heild með því að smella hér
Tökum þátt í vikunni og nýtum hana sem hvatningu til áframhaldandi bættrar heilsu- og lífsstíls.