Pistill bæjarstjóra 29. apríl 2020 – Breyttar áherslur

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Í ljósi þess að svo virðist sem Covid19 sé í rénun hefur Neyðarstjórn  Reykjanesbæjar samþykkt að víkka starfssvið sitt frá og með 4. maí nk. þannig að áfram verði fylgst grannt með þróun Covid-19 en samhliða einbeiti Neyðarstjórnin sér að samfélagslegum og fjárhagslegum áhrifum heimsfaraldursins.

Miðað er við að áherslur verði  eftirfarandi:

  • Þróun faraldurs og áhrif á starfsemi Reykjanesbæjar út frá samkomuviðmiðum sem eru í gildi hverju sinni.
  • Yfirsýn yfir viðfangsefni sem þarf að vinna og fylgja eftir og eru tilkomin vegna áhrifa faraldursins á samfélagið. Fulltrúar hópa sem vinna að þessum viðfangsefnum fara yfir stöðuna á fundum Neyðarstjórnar
  1. Atvinnuleysi/ fjölgun starfa
  2. Fjárhagslegar afleiðingar
  3. Velferð og lýðheilsa íbúa
  • Áfram verður haldið góðu sambandi við Vinnumálastofnun, lögreglu, HSS, félagsþjónustu og neyðarstjórnir annarra sveitarfélaga, menntastofnanir, SAR, ISAVIA o.fl.

Með þessu fyrirkomulagi skapast yfirsýn yfir þá vinnu og aðgerðir sem Reykjanesbær hefur ráðist í vegna þeirrar stöðu sem við nú stöndum fyrir.

Í ljósi frétta af mikilli fjölgun atvinnulausra á svæðinu eru ríki og sveitarfélög að grípa til og undirbúa margvíslegar aðgerðir til að bjarga störfum til lengri tíma litið og halda fyrirtækjum og kennitölum þeirra á lífi. Það er mikilvægt að fyrirtæki í flugtengdri starfsemi, sem lúta alþjóðlegum reglum, gæðakerfum og sérþekkingu starfsfólks, haldi lífi. Það gæti tekið langan tíma fyrir ný fyrirtæki að koma undir sig fótunum í slíkri starfsemi. Í því tilliti er mikilvægt að vinna að aðgerðum til að styðja við þann geira.

 Flestir sem eru að missa vinnuna núna eiga rétt á nokkurra mánaða uppsagnarfresti. Að honum loknum taka við atvinnuleysisbætur. Við vonum auðvitað öll að aðstæður breytist sem allra fyrst um leið og við áttum okkur á því að næstu mánuðir verða erfiðir. Með markvissum aðgerðum ætlum við að koma flugvellinum aftur í gang auk þess að skapa ný störf í öðrum greinum. Við megum ekki missa vonina og trú á framtíðina. Við höfum áður sé það svart og náð að vinna okkur út úr erfiðum aðstæðum. Það mun einnig takast núna.

Frá og með mánudegi 4. maí verða ýmsar tilslakanir á stofnunum og vinnustöðum sveitarfélagsins gerðar í kjölfar breytinga á samkomubanni. Nánari upplýsingar verður að finna www.reykjanesbaer.is sem og á heimasíðum skóla og annarra stofnanna.

Eru bæjarbúar hvattir til að kynna sér þær.

Kveðja
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.