Stefnuáherslur stefnunnar.
Drög að nýrri stefnu Reykjanesbæjar 2020-2030 voru til fyrri umræðu á hátíðarfundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 11. júní sl. og eru nú til kynningar hér á vefnum á heimasíðu sveitarfélagsins. Í stefnunni er gerð tillaga að framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið ásamt gildum sem verða viðmið fyrir menningu, samstarf, þjónustu og vinnubrögð í allri starfsemi bæjarins. Með því að smella hér getur þú kynnt þér stefnuna
Mótaðar hafa verið sex stefnuáherslur sem ná til ársins 2030. Þar á meðal eru áherslur sem sérstaklega er ætlað að hvetja til verkefna til að styðja við yngri kynslóðina og fjölskyldur. Í stefnunni kemur að auka skuli lífsgæði og samskipti á meðal bæjarbúa, þá er lögð sérstök áhersla á umhverfismál, sjálfbærni og skilvirkari þjónustu. Einstök tækifæri eru til staðar að nýta til fulls kosti fjölbreytileikans sem finna má í samfélaginu og er stefnunni ætlað að hvetja til frekari markmiðasetningar til að ná því fram.
Þá koma fram tillögur að 11 markmiðum og því mun samþykkt stefna setja mark sitt á starfsemi bæjarins strax. Í umsagnarferlinu sem nú er framundan eru bæjarbúar sérstaklega beðnir um að skoða og hafa skoðun á markmiðum stefnunnar.
Allir flokkar í bæjarstjórn standa að mótun nýrrar stefnu
Við mótun stefnunnar var horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem er nýjung í starfsemi bæjarins. Auk þess var mikil áhersla var lögð á samstarf við starfsmenn bæjarins sem munu vinna að framgangi stefnunnar og samtal við notendur þjónustu bæjarins um brýnustu úrlausnarefnin.
Stýrihópur sem samanstendur af oddvitum allra flokka í bæjarstjórn ber ábyrgð á vinnunni og hóf störf í nóvember sl. Hann hefur verið verið í miklu samstarfi við bæjarstjóra, stjórnendur Reykjanesbæjar og ráðgjafa frá Capacent.
Yfir 100 starfsmenn bæjarins hafa komið að vinnunni, m.a. á stórfundi starfsmanna sem var haldinn í Hljómahöllinni og formlegir samráðsfundir voru haldnir með fulltrúum frá eftirfarandi hópum:
- Ungmennaráði
- Öldungaráði
- Innflytjendum
- Foreldraráðum í skólum bæjarins
- Samtökum atvinnurekanda á Reykjanesi
- Fólki á aldrinum 20-40 ára
Að loknu umsagnarferli og úrvinnslu verður ný stefna lögð fram í bæjarstjórn til samþykktar. Bæjarbúum er boðið upp á að senda inn umsagnir og ábendingar til 1. september 2019 með því að senda tölvupóst á netfangið stefnamotun2030@reykjanesbaer.is
Fyrstu verkefnatengdu markmiðin eru sett til ársins 2021. Gert er ráð fyrir árlegri endurskoðun á markmiðum stefnunnar og sífelldri vinnu á gildistíma stefnunnar til að komast þangað sem að er stefnt. Markmiðin má finna hér fyrir neðan en þau eru flokkuð eftir áherslum stefnunnar.
Verkefnatengd markmið til og með 2021
BÖRNIN MIKILVÆGUST
- Auka tíðni strætóferða svo hann gangi á 20 mínútna fresti til að efla þátttöku barna í íþróttastarfi og bæta vellíðan þeirra.
- Hvatagreiðslur hækki og verði sambærilegar og hjá öðrum stærri sveitarfélögum landsins, þannig verði hvatt til aukinnar þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi barna.
- Samþætta skólastarf við íþróttir og tómstundir til að auðvelda börnum og foreldrum lífið.
VELLÍÐAN ÍBÚA
- Opna ungbarnadeildir á tveimur leikskólum til að stytta biðtíma eftir leikskólaplássi þannig að þau komist inn við 18 mánaða aldur.
- Styrkja Fjölþætta heilsueflingu 65+ (Janusarverkefnið) um heilsueflingu eldri borgara.
VISTVÆNT SAMFÉLAG
- Uppbygging leiksvæða hreystivalla, grænna svæða og göngustíga til að auka aðgengi íbúa að aðstöðu til útiveru.
- Leggja nýjan gervigrasvöll til að styðja betur við öflugt íþróttastarf.
FJÖLBREYTT STÖRF
- Lækkun fasteignaskatta til þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á starfsumhverfi sem stenst allan samanburð.
KRAFTUR FJÖLBREYTILEIKANS
- Meiri upplýsingamiðlun og samskipti við innflytjendur verði til þess að þátttaka barna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi aukist.
- Hvatt verði til virkra samskipta milli ólíkra hópa m.a. með því að halda þjóðhátíðardag Pólverja hátíðlegan.
SKILVIRKARI ÞJÓNUSTA
- Öll málaleitan íbúa sem má leysa í fyrstu snertingu verði leyst í fyrstu snertingu með öflugri ferlum og aukinni rafrænni þjónustu.