Frá afhendingu gjafarinnar. Frá vinstri: Gunnar Þórarinsson bæjarfulltrúi, Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns, Karvel Granz, Guðbjörg Ingimundardóttir formaður menningarráðs, Ásbjörn Jónsson staðgengill bæjarstjóra, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar.
Reykjanesbæ var í morgun afhent stór gjöf sem komin er úr dánarbúi hjónanna Áka Gränz og Guðlaugar S. Karvelsdóttur. Áki var lengi einn af forsvarsmönnum Njarðvíkinga, sat þar m.a. lengi í bæjarstjórn og hann og Guðlaug tóku þátt í bæjarlífinu af lífi og sál á sínum tíma. Gjöfin samanstóð af fjölda listaverka, ýmsum skjölum og bréfum og fjölbreyttu steinasafni ásamt nokkrum fágætum fuglum. Áki var lengi einn af virkustu listamönnum Reykjanesbæjar og gjöfinni fylgdu alls 158 listaverk af margvíslegu tagi; teikningar, málverk og vatnslitamyndir. Er þetta stærsta einstaka gjöf sem Listasafni Reykjanesbæjar hefur borist og lét forstöðumaður safnsins þess getið að þetta væri góður fengur fyrir sögu myndlistar á svæðinu. Skjöl og ljósmyndir fór til Byggðasafns Reykjanesbæjar og náttúrugripirnir verða sýndir í Duus Safnahúsum í sumar.
Sonur Áka og Guðlaugar, Karvel Gränz afhenti gjöfina fyrir sína hönd og tveggja systkina sinna, þeirra Guðrúnar F. Gränz og Carls B. Gränz heitins en þetta var þeirra arfhluti úr dánarbúi foreldranna. Formaður menningarráðs Guðbjörg Ingimundardóttir ásamt safnstjórunum Sigrún Ástu Jónsdóttur og Valgerði Guðmundsdóttur tóku á móti gjöfinni en Ásbjörn Jónsson settur bæjarstjóri í forföllum Kjartan Más Kjartanssonar og Gunnar Þórarinsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ voru einnig viðstaddir og vottuðu gjörninginn. Voru fjölskyldunni færðar góðar þakkir fyrir höfðingsskapinn.