Ég á þriggja ára stúlku, en eins og með mörg önnur þriggja ára börn þá þarf að viðra hana nokkuð reglulega og leyfa henni að rannsaka nánasta umhverfi. Hún er opin og skemmtileg týpa sem lætur ekkert tækifæri fram hjá sér fara til þess að læra eitthvað nýtt og þar með talið að skoða allt rusl sem á vegi hennar verður.
Við mæðgurnar erum einnig plokkarar og hirðum upp ruslið sem þarf að skoða og komum fyrir í næstu sorputunnu eftir nákvæma skoðun, oft eru þetta um tíu plokk á dag ef við hugsum okkur að eitt plokk sé eitt skipti sem við tökum upp rusl á víðavangi.
Tíu er kannski ósköp lítilfjörleg tala. En hvað ef allir myndu plokka upp eitt rusl tíu sinnum á dag?
Við mæðgur myndum þá samtals plokka 20 rusl á dag, 140 rusl á viku, 600 rusl á mánuði og 7.300 rusl á ári! Bara við tvær. Þetta er fljótt að safnast saman.
Þetta er auðvelt að plokka og þarf ekki að taka langan tíma. Allir geta plokkað, hvort sem þeir fara um einir eða í göngu með vinum eða fjölskyldu. Munum bara að þvo hendur þegar heim er komið og sinna persónulegum sóttvörnum samhliða plokkinu.
Stóri plokkdagurinn er 24. apríl og vil ég hvetja alla íbúa til þess að taka þátt, hvort sem það verða 10 plokk eða heill ruslapoki, allt skiptir máli.
Munum að þetta er bærinn okkar og ábyrgðin okkar.
Nánari upplýsingar er að finna á www.plokk.is
Plokk kveðja!
Berglind Ásgeirsdóttir, umhverfisstjóri Reykjanesbæjar.