Veikar vísbendingar í rétta átt
Þessa dagana vinnur starfsfólk fjármálasviðs Reykjanesbæjar hörðum höndum að gerð ársreiknings fyrir árið 2014. Endurskoðendur Deloitte fylgjast grannt með og passa að allt sé samkvæmt lögum og reglum. Í raun er um nokkra ársreikninga að ræða því margar uppgjörseiningar eru reknar sem sjálfstæðar einingar. Á meðal þeirra eru B-hluta stofnanir eins og Reykjaneshöfn, Fasteignir Reykjanesbæjar og Fráveita Reykjanesbæjar auk hlutafélaga sem eru í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar. Má þar nefna HS Veitur, Íslending ehf. sem á samnefnt víkingaskip, Útlending ehf., sem á fasteignina Víkingaheima sem hýsir skipið og fasteignafélag sem á og rekur Tjarnagötu 12 og fleiri byggingar. Þótt þessar einingar séu allar mikilvægar skiptir mestu máli hvernig uppgjör A-hluta bæjarsjóðs mun líta út en innan hans er grunnþjónusta sveitarfélagsins s.s. rekstur skólakerfisins, félagsþjónustu, menningarstofnana og íþrótta- og tómstundamála.
Stigið á bremsurnar
Á síðari hluta árs 2014 stefndi í talsverða framúrkeyrslu á árinu með tilheyrandi hallarekstri. Gerð var svokölluð útkomuspá sl. haust en hún byggði á upplýsingum úr rekstrinum þá mánuði sem liðnir voru og þeim skuldbindingum og áætlunum sem búið var að gera fyrir þá mánuði sem eftir voru. Útkomuspáin sýndi að reksturinn stefndi í að verða hundrðum milljónum króna verri en upphafleg fjárhagsáætlun ársins 2014 gerði ráð fyrir. Því ákváðu bæjaryfirvöld að stíga þétt á bremsurnar og ráðast í aðhaldsaðgerðir í samstarfi við stjórnendur og starfsmenn Reykjanesbæjar með það að markmiði að draga úr fyrirsjáanlegum rekstrarhalla. Tilfinning okkar er sú að tekist hafi að koma böndum á rekstrarkostnaðinn en endanleg niðurstaða verður samt ekki ljós fyrr en ársreikningurinn verður lagður fram um miðjan apríl.
Niðurstöður kjarasamninga breyta miklu
Það sem af er árinu 2015 bendir allt í sömu átt þ.e. að tekist hafi að stöðva hallarekstur Reykjanesbæjar. Þó er alltof snemmt að draga einhverjar endanlegar ályktanir enda margt óljóst í náinni framtíð. Til dæmis munu niðurstöður kjarasamninga breyta miklu því nær helmingur rekstrarkostnaðar A-hluta Reykjanesbæjar, eða um 5 milljarðar, eru laun og launatengdur kostnaður. Hvert prósent, sem sá kostnaður hækkar um þýðir því 50 milljóna útgjaldahækkun sveitarfélagsins. Við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2015 var gert ráð fyrir 3,5% launahækkunum á árinu en ef þær hækkanir verða meiri mun það hafa mikil áhrif.
Samhliða því sem reynt er að ná tökum á rekstrarkostnaði Reykjanesbæjar er unnið hörðum höndum að því að leita leiða til að auka tekjur. Vonandi náum við einnig árangri á því sviði.
Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri