Afhending Hvatningarverðlaunanna 2024

Hvatningarverðlaun Menntaráðs 2024. Fulltrúar verkefnisins ásamt Sighvati Jónsyni varaformanni Menn…
Hvatningarverðlaun Menntaráðs 2024. Fulltrúar verkefnisins ásamt Sighvati Jónsyni varaformanni Menntaráðs, Helga Arnarsyni sviðsstjóra Menntasviðs og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur forseta bæjarstjórnar.

Hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjanesbæjar voru afhent í Bíósal Duus við hátíðlega athöfn þann 30. maí 2024. Alls bárust 13 tilnefningar og voru verkefnin fjölbreytt að vanda.

Að þessu sinni urðu tvö verkefni jöfn og hlutu þau því bæði Hvatningarverðlaunin. Um er að ræða verkefnin Faglegt og fjölbreytt starf í Öspinni í Njarðvíkurskóla og Lindin – stofnun og þróun sértæks námsúrræðis í Akurskóla. Að auki hlaut verkefnið Allir í skólann – snemmtæk íhlutun vegna skólaforðunar í Holtaskóla sérstaka viðurkenningu.

Í tilnefningum til Hvatningarverðlauna kemur þetta fram um verkefnin.

Faglegt og fjölbreytt starf í Öspinni:

Við tilnefnum sérdeildina Ösp við Njarðvíkurskóla og það faglega og fjölbreytta starf sem þar er unnið. Deildin var stofnum árið 2002 og er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á sértæku námsúrræði að halda og eru nemendur teknir inn í deildina að undan gengum inntökufundi. Deildin sinnir nemendum með miklar stuðningsþarfir. Í dag eru 25 nemendur skráðir í deildina og er deildin vel mönnuð fagfólki en þar starfa auk deildarstjóra, sérkennarar, þroskaþjálfar, atferlisfræðingar, sálfræðingur/sérfræðingur, félagsliðar og almennir starfsmenn skóla. Nemendur tilheyra allir ákveðnum umsjónarbekk í Njarðvíkurskóla og sækja tíma með bekkjafélögum eins og kostur er, allt eftir styrkleika hvers og eins. Allt starf deildarinnar miðar að því að hafa velferð nemenda að leiðarljósi í allri skipulagningu á námi þeirra og er unnið eftir einstaklingsáætlun þar sem lögð er áhersla á tjáningu, lestur, stærðfræði, skynnám, félagsfærni og athafnir daglegs lífs. Þegar skóla lýkur er boðið upp á frístundaúrræði til kl. 16:15. Starfsemi deildarinnar tekur mið af þeim nemendahópi sem er þar hverju sinni og tekur þátt í þeim stóru verkefnum sem verið er að vinna að í Njarðvíkurskóla en verkefnin eru aðlöguð að nemendahópi í Ösp. Við viljum sérstaklega nefna nú árshátíðaratriði frá Ösp en hópur nemenda úr Ösp var með

skemmtilegt atriði á árshátíð Njarðvíkurskóla sem þeir sýndu einnig á Hæfileikahátíð barna í Stapa sem var hluti af barnahátíð Reykjanesbæjar/BAUN. Mikil vinna er hjá starfsfólki í Ösp allt skólaárið að vinna með nemendum að framgangi slíks atriðis og voru margir sigrar unnir reglulega hjá nemendur sem gerðu þeim kleift að koma fram og sýna sitt atriði. Atriðið var unnið á einstaklega skemmtilegan hátt með einlægni og gleði að leiðarljósi. Gaman var einnig að sjá viðbrögð forráðamanna sem voru klökkir og stoltir af sínu barni, að sjá það blómstra í slíku verkefni. Það er því með stolti sem við tilnefnum Ösp sérdeild til Hvatningaraverðlauna Reykjanesbæjar.

Rökstuðningur: Margir litlir sigrar eru unnir í Ösp á hverjum degi enda er starfið allt framúrskarandi faglegt og vel skipulagt. Það er einnig öðrum til eftirbreytni að sjá hvernig allir sem þar starfa í krefjandi umhverfi vinna að því að mæta ólíkum þörfum nemenda á sem fjölbreytilegastan hátt. Við finnum líka svo vel að horft til starfsemi í Ösp frá öðrum utanaðkomandi fagaðilum og fær starfsemin hrós víða.

Þau sem standa að verkefninu: Kristín Blöndal, Linda Birgisdóttir, Andrea Ösp Böðvarsdóttir, Eygló Alexandersdóttir, Heiðdís Inga Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Kristinsdóttir, Sara Dögg Margeirsdóttir

Lindin – stofnun og þróun sértæks námsúrræðis:

Lind er nýlegt námsúrræði í Reykjanesbæ í Akurskóla fyrir börn með einhverfu. Hún fór af stað fyrir þremur árum en hefur vaxið og dafnað þessi fyrstu ár og verður á næsta skólaári fullsetin með 10 nemendur. Á þessu skólaári hefur Lindin gengið í gegnum miklar breytingar og nýtt og glæsilegt rými var opnað og vígt í Akurskóla fyrir nemendur Lindar í nóvember sl. Nemendafjöldi jókst úr 5 í 8 nemendur haustið 2023. Starfsfólk Lindar hefur náð miklum árangri með þá nemendur sem hafa notið þjónustu í námsúrræðinu á þessum fyrstu þremur árum deildarinnar. Nemendur sýna miklar framfarir bæði í námi og hegðun og það geislar af þeim hve vel þeim líður í Lindinni. Þar sannast best hvernig gott skólaumhverfi aðlagað að þörfum barna getur haft jákvæð áhrif á árangur. Og vinna fagfólks og stuðningsfulltrúa hefur líka allt að segja með þessa jákvæðu þróun sem við sjáum hjá nemendum. Í Lindinni starfa þroskaþjálfi, iðjuþjálfi, kennarar og stuðningsfulltrúar.

Nemendur fá þjálfun og kennslu í Lindinni en sækja allir, mismikið eftir getur og áhuga, tíma með sínum árgangi. Stefna Lindar er að nemendur fylgi sínum árgangi eins mikið og hægt er hverju sinni. Dæmi um tíma sem nemendur fylgja sínum jafnöldrum í er íþróttir og list- og verkgreinar. Nemendur fara líka í alla bóklega tíma eins og þeir treysta sér til og hafa úthald í en eiga alltaf möguleika á að fara til baka í rólegt umhverfi Lindar ef á þarf að halda.

Kennslufyrirkomulag í Lind er miðað við TEACCH líkanið og þjálfun fer fram með atferlismótun að hluta. Kennsla í úrræðinu er að öðru leyti byggð á aðalnámskrá grunnskóla. Unnið er í styttri námslotum og notast við umbunarkerfi. Í Lind er lögð áhersla á að nemendur nái færni í stærðfræði og íslensku og geti bjargað sér í daglegu lífi. Markmið Lindar er að hafa jákvæð áhrif á horfur barns og fjölskyldu og að efla lífsgæði barnsins og það má fullyrða að þessi fyrstu ár hafi markmiðinu verið náð með nemendur Lindar þar sem við sjáum jákvæða þróun hjá flestum ef ekki öllum nemendum. Hópurinn sem stundar nám í Lind er fjölbreytilegur og þjónustan þarf að taka mið af hverju barni fyrir sig og fjölskyldu þess.

Rökstuðningur: Velferð nemenda er mikilvæg og ekki síst þeirra sem mega sín minna. Í ljósi umræðu í þjóðfélaginu þar sem fjölskyldur hafa stigið fram og líst úrræðaleysi sveitarfélaga og skóla þegar kemur að málefnum barna með taugafjölbreytileika þá er mikilsvert að lyfta því upp sem vel er gert fyrir þennan hóp barna. Lindin er dæmi um starf sem hugar að velferð nemenda sem hefur heppnast einstaklega vel. Nú er verið að styðjast við þá uppbyggingu og þróun sem hefur verið unnin í Akurskóla vegna Lindar til að stofna annað sambærilegt úrræði í Reykjanesbæ við annan skóla til að þjónusta enn betur nemendur Reykjanesbæjar sem glíma við einhverfu eða taugabreytileika af þeim toga. Tilnefning þessi er til þeirra starfsmanna sem starfa í Lindinni og hafa tekið þátt í uppbyggingu á þessu nauðsynlega námsúrræði á vegum Reykjanesbæjar.

Þau sem standa að verkefninu: Stjórnendur, fagfólk og stuðningsfulltrúar í Lind.

Að auki vill menntaráða veita verkefninu Allir í skólann – snemmtæk íhlutun vegna skólaforðunar í Holtaskóla sérstaka viðurkenningu. Markmið verkefnisins er að grípa börn sem sýna merki um skólaforðun. Með góðu samstarfi við heimilin er hægt að kortleggja líðan nemenda mun fyrr, komast að rót vandans og beita snemmtækri íhlutun. Jenný Magnúsdóttir hefur það hlutverk að sinna ráðgjöf og stuðningi til starfsmanna, foreldra og nemenda og finna með þeim árangursríkar leiðir til að stuðla að vellíðan og farsæld nemenda.

Á undan afhendingu Hvatningarverðlaunanna voru undirritaðir samningar vegna verkefna sem hljóta styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fyrir skólaárið 2024-2025. Þetta er í fimmta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en alls bárust umsóknir um styrki til 17 verkefna upp á rúmar 17,5 milljónir króna. Úthlutunin nær til 11 verkefna og nemur heildarfjárhæð styrkloforða 10.660.000 kr.

Yfirlit yfir verkefnin sem fengu úthlutun:

Skóli

Verkefni

Akurskóli

Akurinn - samþætting námsgreina á unglingastigi

Akurskóli

Leiðsagnanám - festum það í sessi

Akurskóli

Skólaskjálfti

Heiðarskóli

Betri líðan nemenda - aukin árangur í námi

Heiðarskóli

Tækni, sköpun og gervigreind

Njarðvíkurskóli

Skynheimur í Ösp

Njarðvíkurskóli

Leiðsagnarnám í Njarðvíkurskóla

Skógarás

Málgleði

Stapaskóli

Veitan

Stapaskóli

Tónmennt án landamæra

Stapaskóli

Fjármál til framtíðar