Aðventuganga og ljósin tendruð á jólatrénu

Nú er aðventan handan við hornið, tími eftirvæntingar og jólaljósa sem lýsa upp skammdegið og glæða umhverfið hátíðleika. Þá opnum við líka fallega Aðventugarðinn okkar þar sem fjölskyldur geta átt saman notalegar stundir í aðdraganda jóla.

Við hefjum leika með Aðventugöngu á fyrsta sunnudegi í aðventu, 1. desember kl. 16. Mæting er við jólatréð í Aðventugarðinum þar sem Fjóla tröllastelpa og jólasveinn leiða gönguna! Genginn verður hringur frá Tjarnargötu upp Vallargötu, niður Brunnstíg að Kirkjuvegi en þar stoppum við og sjáum skemmtilega LEDhúllasýningu frá Húlladúllunni. Hópurinn gengur svo niður Kirkjuveginn í Aðventugarðinn þar sem Fjóla og jólasveinninn taka lagið auk þess sem boðið verður upp á heitt kakó og piparkökur og kveikt verður á ljósunum á jólatré Aðventugarðsins.

Aðventugarðurinn opinn um helgar
Helgina 7. - 8. desember opnar svo Aðventugarðurinn með lifandi dagskrá, jólasveinum á ferli og sölu á ýmsum varningi í jólakofunum. Alla dagskrá og nákvæmari tímasetningar verður að finna á vefnum visitreykjanesbaer.is. Aðventugarðurinn verður svo opinn um helgar frá kl. 14-17 og á Þorláksmessu frá kl. 18-21.

Aðventusvellið í fullum gangi
Eins og bæjarbúar hafa vafalaust tekið eftir er allt komið á syngjandi siglingu á Aðventusvellinu þar sem fjölskyldum gefst einstakt tækifæri til að upplifa saman gleðilegar stundir með hressandi útivist og hreyfingu. Opið er á svellinu um helgar í nóvember og frá föstudegi til sunnudags í desember auk þess sem tækifæri er til þess að halda afmælisveislur á svellinu og bóka ýmsa hópeflis- og viðburðapakka. Hægt er að kaupa áskrift að svellinu og nýta má frístundastyrk Reykjanesbæjar til þess. Allar nánari upplýsingar um opnunartíma og bókanir eru á adventusvellid.is

Jólahús og jólafyrirtæki
Einnig er í undirbúningi val á jólahúsi og nú líka jólafyrirtæki Reykjanesbæjar. Í bænum finnast ótal mörg jólabörn sem leggja mikið upp úr fallegum jólaskreytingum sem eru okkur öllum til ánægju og yndisauka í svartasta skammdeginu. Íbúar eru því hvattir til að hafa augun hjá sér og taka eftir fallega skreyttum húsum og fyrirtækjum eða verslunargluggum sem síðan verður hægt að tilnefna í skemmtilegum jólaleik. Verkefnið verður kynnt nánar fljótlega.

Það er því um að gera að njóta alls þess sem boðið er upp á í bænum á aðventunni en alla jóladagskrá verður að finna á vefsíðunni visitreykjanesbaer.is