Bæjarstjórastarfið spennandi áskorun

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs og staðgengill bæjarstjóra Reykjanesbæjar, hefur tekið við stjórnartaumunum til áramóta á meðan Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri er í veikindaleyfi.

„Seigla, tækifæri og fjölbreytileiki“ eru þrjú orð sem Halldóra Fríða myndi nota til þess að lýsa Reykjanesbæ en Halldóra hefur búið í sveitarfélaginu ásamt eiginmanni sínum, Friðriki, síðan hún var sautján ára og eiga þau saman þrjár dætur, Ernu Dís 22 ára, Elísu Helgu 19 ára og Eydísi Sól 13 ára. Hún er menntaður grunnskólakennari með framhaldsmenntun í sérkennslufræðum með áherslu á kennslu blindra- og sjónskertra frá University of Birmingham. Hún hóf störf í Heiðarskóla sem leiðbeinandi árið 2001 og hefur frá þeim tíma byggt upp víðtæka reynslu innan sveitarfélagsins. Árið 2018 tók hún fyrstu skrefin í bæjarpólitíkinni og hefur síðan þá sinnt fjölbreyttum störfum. „Ég elska að vinna hér heima því við erum með svo öflugar menntastofnanir, frábært fagfólk og hér er starfsþróun stór hluti af störfum kennara sem er svo dýrmætt í umhverfi sem er í sífelldri þróun,“ segir Halldóra. Hún er einnig varaþingmaður og hefur fengið að taka nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem hún segir að hafi verið mjög lærdómsríkt.

Þrátt fyrir stuttan tíma í nýju starfi er Halldóra spennt fyrir áskorunum i bæjarstjórahlutverkinu og leggur áherslu á að mæta þeim með opnum huga og jákvæðu viðhorfi. Markmiðið er að læra af reynslunni og að mæta þeim áskorunum sem á vegi hennar verða. „Ég mun ekki hafa svör við öllu, en sem betur fer eru ótrúlega hæfir stjórnendur og starfsfólk að vinna hjá sveitarfélaginu sem hægt er að leita til auk kollega og ráðgjafa með mikla reynslu,“ bætir Halldóra við.

Mannlegi þátturinn er Halldóru sérstaklega kær og hún telur aðgengi og heiðarleika vera lykilatriði í samskiptum sínum við bæjarbúa. „Mér finnst mikilvægast að vera aðgengileg, að hlusta á íbúa og vera heiðarleg. Mannlegi þátturinn í samskiptum er að mínu mati ómetanlegur og eins samkennd og hlýja,“ segir hún. Halldóra hefur síðustu misseri boðið upp á vikulega viðtalstíma við íbúa, sem bókaðir eru í gegnum þjónustuverið, og hafa þeir verið vel nýttir. „Stundum eru málin mjög viðkvæm og persónuleg og þá skiptir máli að bæjarbúar geti treyst því að farið sé vel með það sem fram kemur í samtölunum,“ bætir hún við. „En ég vil líka að það sé hægt að spjalla um daginn og veginn í búðinni, á kappleikjum, í ræktinni eða bara þar sem maður hittir íbúa og mér þykir dýrmætt að geta átt þannig samskipti.“

Þegar Halldóra er beðin um að lýsa sjálfri sér segist hún vera léttlynd og hefur sérstaklega gaman af góðum fimmaurum, þá sé hún líka með rosalegt keppnisskap sem er oft kostur svona almennt í lífinu. „Annars er ég bara mjög heimakær og elska að vera með mínum nánustu og nýti hvert tækifæri til þess“, sagði Halldóra að lokum.

Reykjanesbær óskar Halldóru Fríðu góðs gengis í nýju hlutverki.