Fulltrúar Reykjanesbæjar ásamt bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Kjartani Má Kjartanssyni, heimsóttu nýverið Helguvík til að kynna sér tilraunaverkefni fyrirtækisins Carbfix, sem ber heitið Sæberg. Reykjanesbær tekur þátt í verkefninu með því að veita Carbfix aðstöðu í Helguvík.
Verkefnið Sæberg er fyrsta sinnar tegundar þar sem niðurdæling með sjó verður prófuð. Í fyrri niðurdælingar verkefnum Carbfix hefur CO2 verið leyst í vatni. Sæberg er staðsett í Helguvík þar sem boruð var niðurdælingarhola og einnig vöktunarholur. Verkefnið gengur jafnframt út á að prófa og þróa ýmsar tæknilausnir til að fanga, nýta og farga CO2 frá Sviss og flytja það með skipi til Íslands þar sem það verður leyst í sjó fyrir niðurdælingu og steindabindingu með Carbfix aðferðinni.
Carbfix hefur starfað frá árinu 2012 og fangað CO2 frá Hellisheiðarvirkjun. CO2 er blandað ferskvatni og dælt ofan í basaltjarðlög þar sem það umbreytist í stein með náttúrulegum efnahvörfum. Þessi aðferð til varanlegrar og öruggrar förgunar á CO2 hefur vakið heimsathygli. Sumarið 2022 var tilkynnt að verkefni Carbfix, Coda Terminal, móttöku- og förgunarstöð fyrir CO2 í Straumsvík, væri eitt af 17 verkefnum sem hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu og fengu vilyrði fyrir 115 milljóna evra styrk.
„Við erum stolt af því að fá tækifæri til að vera þátttakendur í svo metnaðarfullu og mikilvægu verkefni eins og Sæberg er og stuðlar að áframhaldandi þróunarstarfi Carbfix. Kolefnisförgun er einn þeirra þátta sem er nauðsynlegur í baráttunni við loftslagsbreytingar og mun hjálpa til við að ná þeim markmiðum sem Ísland hefur sett sér um kolefnishlutleysi. Við hjá Reykjanesbæ höfum mikinn metnað til að gera vel þegar kemur að loftslagsmálum og munum halda áfram að vinna markvisst í að leggja okkar af mörkum á næstu árum og áratugum í átt að kolefnishlutleysi,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.