Reykjanesbær hefur ákveðið að bjóða öllum grunnskólanemendum gjaldfrjálsar skólamáltíðir á skólaárinu. Þetta þýðir að foreldrar þurfa ekki lengur að greiða fyrir skólamáltíðir barna sinna þar sem sveitarfélagið mun standa straum af kostnaðinum að fullu.
Skráning í mataráskrift
Foreldrar þurfa áfram að skrá börn sín í mataráskrift en sú skráning hefst fimmtudaginn 22. ágúst á www.skolamatur.is. Reykjanesbær greiða fyrir skólamáltíðir samkvæmt skráningu foreldra. Skráning nemenda í áskrift er nauðsynleg til að tryggja máltíðir fyrir alla sem þess óska og með skráningunni má einnig halda matarsóun í lágmarki.
Mánaðarlega verður áskriftaskráningin endurskoðuð og ef mataráskrift er ekki nýtt í heilan mánuð lokast fyrir hana og foreldrar þurfa að sækja um hana aftur.
Foreldrar eru hvattir til að skrá börn sín í mataráskrift svo hægt sé að sjá raunverulegan fjölda nemenda sem nýta sér gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Þetta mun hjálpa sveitarfélaginu að halda utan um kostnað og tryggja að sveitarfélagið greiði aðeins fyrir þá nemendur sem ætla sér að nýta skólamatinn.
Lög um gjaldfrjálsar skólamáltíðir
Við þinglok Alþingis í upphafi sumars var samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem snýr einkum að gjaldfrjálsum skólamáltíðum í grunnskólum landsins. Lögin kveða á um að við tekjur Jöfnunarsjóðs bætist árlegt framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóður úthlutar til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Framlag ríkisins mun jafngilda 75% af því sem foreldrar hefðu greitt fyrir skólamáltíðir.
Markmið
Markmið með gjaldfrjálsum skólamáltíðum er að tryggja öllum grunnskólabörnum landsins aðgengi að góðum og hollum hádegisverði óháð fjárhagslegri stöðu foreldra. Þetta stuðlar að auknum jöfnuði og leggur þannig ríkari áherslu á jafnara samfélag fyrir alla.