Er jólaspenningurinn í hámarki á þínu heimili? Þá mælum við svo sannarlega með heimsókn í fallega Aðventugarðinn. Þar er gullið tækifæri til að umfaðma jólastemninguna, fá sér heitt kakó, steikja sykurpúða yfir opnum eldi og hitta fyrir jólasveina og sjálfa Grýlu sem mætir til að taka stöðuna á sonum sínum og börnunum í Reykjanesbæ.
Boðið verður upp á um 30 dagskrárliði um helgina og á Þorláksmessu og því ættu allir að geta hitt á eitthvað skemmtilegt og jólalegt í heimsókn sinni í garðinn. Tímasetta dagskrá er að finna hér. Þá eru jólakofarnir á sínum stað og aldrei að vita nema þar megi næla sér í skemmtilegar gjafir í jólapakkann eða eitthvað til að njóta.
Þá eru auðvitað allir hvattir til að skella sér á skauta og svífa um á Aðventusvellinu nú eða taka salibunu í hringekjunni sem er á svæðinu.
Jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar
Nýlega gafst íbúum kostur á að senda inn tillögur að jólahúsi og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar. Verkefnið er fyrst og fremst til gamans gert og til að vekja athygli á skemmtilegu íbúaframlagi sem leynist vítt og breitt um bæinn fyrir alla til að njóta í svartasta skammdeginu. Töluverður fjöldi tillagna barst og því var úr vöndu að ráða fyrir menningar- og þjónusturáð Reykjanesbæjar sem fékk það verkefni að ákveða hvaða hús og fyrirtæki yrðu fyrir valinu. Það fór svo að jólahús Reykjanesbæjar í ár er Gónhóll 11 þar sem gefur að líta fallega jólaveröld sem gleður jafnt börn sem fullorðna. Nafnbótina Jólafyrirtæki Reykjanesbæjar hljóta Bílakjarninn og Nýsprautun, Njarðarbraut 13, en þar blasa við stílhreinar og smekklegar jólaskreytingar sem njóta sín m.a. vel frá Reykjanesbraut. Viðurkenningarnar verða afhentar í Aðventugarðinum kl. 20 á Þorláksmessukvöld en verkefnið nýtur stuðnings Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir samstarfið í þessu skemmtilega verkefni.
Megi þessir síðustu dagar fram til jóla verða fullir af skemmtilegum stundum í bland við ýmis konar jólaskyldustörf
Gleðileg jól úr Aðventugarðinum!
https://visitreykjanesbaer.is/vidburdur/adventugardurinn/