Guðrún tilnefnd sem kennari ársins

Í tilefni af Alþjóðadegi kennara þann 5. október voru kynntar tilnefningar til íslensku menntaverðlaunanna. Guðrún Sigurðardóttir, kennari við leikskólann Gimli í Reykjanesbæ, var tilnefnd sem kennari ársins. Hún var tilnefnd fyrir einstaka fagmennsku og ástríðu í leikskólastarfi þar sem áhersla er lögð á jákvæð samskipti, styðjandi umhverfi, samkennd og traust.

Guðrún útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands árið 1982 en hún segir að áhugi hennar á starfinu hafi kviknað þegar hún byrjaði að starfa sem leiðbeinandi í leikskóla í Breiðholtinu. En hún segir einnig að hún hafi ætíð haft góða kennara og góðar fyrirmyndir í gegnum skólagöngu sína sem báru mikla virðingu og gæsku fyrir þeim krökkunum. Glaðir og jákvæðir kennarar lögðu grunninn. 

Þegar Guðrún er spurð hvað veitir henni innblástur í starfi sínu, svarar hún að hún sækir hann í gömlu góðu gildin. „Virðing, umburðarlyndi og umhyggja, svo má nú ekki gleyma jákvæðni og gleði, sem er svona rauði þráðurinn í því að vinna með börnum.“

Á leikskólanum Gimli er unnið eftir hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Guðrún segir að þessi stefna leggi áherslu á einfalt og jákvætt starfsumhverfi sem einkennist af kærleika, virðingu og gleði. Hún segir einnig að þau leggi áherslu á að öll börn eiga skilið það besta og að það sé í höndum okkar fullorðnu að skapa börnum uppbyggilegt og nærandi umhverfi. 

Guðrún hefur komið að ýmsum verkefnum sem byggja á jákvæðum samskiptum og samkennd. Eitt þeirra er samstarfsverkefni á milli Gimli og Nesvallar/Hrafnistu sem heitir Gaman Saman. „Verkefnið hefur nú þegar fest sig í sessi sem samfélagslegt verkefni, þar sem kynslóðir miðla á milli sögum, ljóðum, dansi og síðast en ekki síst ljúfri nærveru, virðingu, umhyggju og vellíðan. Það að tengja saman kynslóðirnar, nemendur okkar á Gimli og eldri borgara á Nesvöllum, hefur verið alveg ómetanlegt og þykir mér ávallt vænt um þetta verkefni. Aldur er afstæður og vinátta spyr sko ekki um aldur.“

Guðrún hefur einnig unnið að samstarfsverkefni við Njarðvíkurskóla til að brúa bilið milli skólastiga. „Það er ómetanlegt að vinna svona faglegt og gott starf saman og tengja þannig skólastigin til að stuðla að farsælli skólagöngu.“

Tilnefningin hefur mikla þýðingu fyrir Guðrúnu og er hún afar þakklát fyrir hana. „Þessi tilnefning er ómetanleg og mikill heiður. Það að fá starf sitt metið að verðleikum er alveg ólýsanleg tilfinning og ég er bara hrærð og þakklát. Ég deili þessari tilnefningu með frábæra skólasamfélagi okkar í Reykjanesbæ og að sjálfsögðu kærleiksmiðuðu stefnunni okkar Hjallastefnunni, sem er sannkölluð mannræktarstefna,“ segir Guðrún að lokum.

Reykjanesbær óskar Guðrúnu hjartanlega til hamingju með tilnefninguna!