Suðurhlíð, ný miðstöð fyrir þolendur ofbeldis hefur opnað á Suðurnesjum. Suðurhlíð er staðsett í húsnæði heilsugæslunnar Höfða í huggulegu rými þar sem Inga Dóra Jónsdóttir félagsráðgjafi og teymisstjóri Suðurhlíðar tekur á móti þolendum.
Hjá Suðurhlíð verður boðið upp á áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis af öllum kynjum, 18 ára og eldri. Lögð er áhersla á þverfaglega samvinnu mismunandi stofnana og samtaka sem koma að vinnu með þolendum á Suðurnesjum. Þjónustunotendum Suðurhlíðar er mætt með hlýlegu og öruggu umhverfi, á þeirra forsendum og þeim að kostnaðarlausu.
Hægt er að panta tíma í fræðslu eða ráðgjöf hjá Ingu Dóru á vef Suðurhlíðar, www.sudurhlid.is . Boðið er upp á viðtöl í húsakynnum Suðurhlíðar, símaviðtöl og viðtöl með fjarfundabúnaði. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á vefsíðunni en opið er frá 8:30 til 16:00 alla virka daga.
Opnunarhátíð Suðurhlíðar var haldin fimmtudaginn 17. október sl. á Marriott, Aðalgötu 60, en fjöldi manns mætti til að fagna opnuninni eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Suðurhlíð er systurmiðstöð Bjarkarhlíðar í Reykjavík, Bjarmahlíðar á Akureyri og Sigurhæða á Selfossi. Sem bjóða upp á sambærilega þjónustu.
Stjórn Suðurhlíðar samanstendur af fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, embætti lögreglunnar á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.
Inga Dóra teymisstjóri segir að Suðurhlíð hafi verið einstaklega vel tekið af nágrönnum og öllu starfsfólki Heilsugæslunnar Höfða og mikill stuðningur og velvilji sé í samfélaginu, enda löngu tímabært að opna miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum sem er ört stækkandi samfélag.
Reykjanesbær óskar Suðurnesjafólki til hamingju með opnun Suðurhlíðar, enda um stór framfaraskref í velferðarþjónustu við íbúa svæðisins.