Í gær, sunnudaginn 12. janúar, fór fram hátíðleg athöfn í Hljómahöll þar sem íþróttafólk Reykjanesbæjar 2024 var heiðrað. Körfuboltakonan Thelma Dís Ágústsdóttir og sundmaðurinn Guðmundur Leo Rafnsson voru valin íþróttafólk ársins og hlutu sérstaka viðurkenningu fyrir frábæran árangur á árinu.
Framúrskarandi árangur íþróttafólks
Athöfnin var mjög vel sótt af íþróttafólki og aðstandendum, og mikil gleði ríkti í salnum. Verðlaun voru afhent til þeirra sem sýndu framúrskarandi árangur á árinu 2024. Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu var Elsa Pálsdóttir, sem varð tvöfaldur heimsmeistari í kraftlyftingum. Hún setti einnig heimsmet í réttstöðulyftu í sínum flokki og sýndi framúrskarandi árangur á heimsvísu. Auk þess fengu þeir sem unnu Íslandsmeistaratitil á árinu viðurkenningu fyrir árangur sinn, og Sjálfboðaliðar voru heiðraðir fyrir ómetanlegt framlag sitt til íþróttahreyfingarinnar. Framlag þeirra skiptir sköpum fyrir starfsemi deildanna og er ómetanlegt að eiga aðila sem gefa tíma sinn og krafta til að efla íþróttastarf fyrir alla aldurshópa í Reykjanesbæ.
Íþróttafólk Reykjanesbæjar 2024
Thelma Dís Ágústsdóttir er íþróttakona Reykjanesbæjar 2024 og hefur verið í fremstu röð íslensks körfubolta undanfarin ár og skarað fram úr bæði innanlands og erlendis. Á árinu varð hún deildar-, bikar- og Íslandsmeistari með Keflavík, var valin í úrvalslið deildarinnar og valin Körfuknattleikskona ársins 2024. Hún var einnig lykilleikmaður í landsliðinu. Með elju og ástríðu hefur hún hjálpað til við að lyfta íslenskum körfubolta á nýjar hæðir.
Guðmundur Leo Rafnsson er íþróttakarl Reykjanesbæjar 2024 og hefur einnig skarað fram úr á sínu sviði. Hann er einn fremsti sundmaður Íslands og hefur á árinu unnið til fjölda verðlauna bæði á alþjóðlegum mótum og innanlands og setti meðal annars þrjú ný Íslandsmet. Með mikilli einbeitingu og metnaði hefur Guðmundur orðið fyrirmynd fyrir aðra íþróttaiðkendur og sett mark sitt á íþróttalíf landsins.
Hjartanlegar hamingjuóskir
Reykjanesbær óskar Thelmu Dís, Guðmundi Leo og öllum þeim sem hlutu viðurkenningar hjartanlega til hamingju. Þvílíkar fyrirmyndir fyrir allt flotta íþróttafólkið okkar í Reykjanesbæ!