80 ára afmæli lýðveldisins fagnað

Ljósmynd frá lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944.
Ljósmynd frá lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944.

Íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum þann 17. júní 1944 og fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Af því tilefni skipaði Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra nefnd sem unnið hefur að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin. Nefndin er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu Alþingis, skrifstofu forseta Íslands og Þingvallaþjóðgarðs.

Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins hefur þannig verið sett upp með fjölda viðburða. Upplýsingar um þá er að finna á vef Stjórnarráðs Íslands. Þar má meðal annars nefna útgáfu bókar um þjóðhátíðarljóð, hátíð á Hrafnseyri, þjóðhátíð á Þingvöllum, gönguferðir um þjóðlendur, opið hús á Bessastöðum og Alþingi auk menningarviðburða um allt land. Hátíðahöldin ná hámarki 17. júní, þegar 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, með dagskrá og kórasöng um allt land.

Lýðveldisdagskrá í Reykjanesbæ

Bókagjöf til landsmanna

Hér í Reykjanesbæ fögnum við tímamótunum með ýmsum hætti. Íbúar geta íbúar nálgast bókina Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær, sem er gjöf til landsmanna, á Bókasafn Reykjanesbæjar og í Sundmiðstöðina við Sunnubraut þar sem hún liggur frammi. Fjallkonan er þjóðartákn og í bókinni er kafað ofan í sögu fjallkonunnar, ávörpin sem flutt hafa verið af íslenskri fjallkonu allt frá árinu 1947 ásamt úrvali þjóðhátíðarljóða. Í bókinni eru þýðingar m.a. á ensku og pólsku.

Sungið með landinu

Í tilefni afmælisins er sjónum beint sérstaklega að kórum landsins og því merka grasrótarstarfi sem á sér stað um allt land í kórastarfi. Af því tilefni munu kórar hvaðanæva af landinu syngja valin lög á þjóðhátíðardaginn 17. júní undir yfirskriftinni Sungið með landinu. Við í Reykjanesbæ tökum þátt í því og í skrúðgarðinum á 17. júní líta tvö kóraverkefni dagsins ljós. Annars vegar verður flutt nýtt lag við þjóðhátíðarljóðið Ávarp fjallkonunnar 2015 eftir Þórarin Eldjárn. Lagið flytja félagar úr kórum Reykjanesbæjar undir stjórn Arnórs Vilbergssonar organista kórs Keflavíkurkirkju og Jóhanns Smára Sævarssonar stjórnanda Karlakórs Keflavíkur og söngsveitarinnar Víkinga. Efnt var til samkeppni um nýtt lag við þjóðhátíðarljóðið og hlaut Atil Ingólfsson tónskáld fyrstu verðlaun en þess má geta að Atli Ingólfsson er fæddur og upp alinn í Njarðvík. Hitt kóraverkefnið, Afmæliskór Reykjanesbæjar, hlaut styrk úr afmælissjóði í tilefni 30 ára afmælis Reykjanesbæjar. Kór Keflavíkurkirkju bauð öllum sem vildu að taka þátt í afmæliskór sem kom saman einn dag og æfði fjölbreytt afmælislög. Afraksturinn verður fluttur í skrúðgarðinum á 17. júní undir stjórn Arnórs Vilbergssonar.

Boðið upp á bollaköku

Á þjóðhátíðardaginn býður Forsætisráðuneytið landsmönnum upp á sérstaka lýðveldisbollaköku í skrúðgarðinum í Keflavík.

Stærsti fáni landsins til sýnis í Duus safnahúsum

Loks opnar Byggðasafn Reykjanesbæjar sýningu í Bíósal Duus safnahúsa í tilefni lýðveldisafmælisins sem ber yfirskriftina Rís þú unga Íslands merki. Þann 17. júní 1944 tók ný stjórnarskrá landsins gildi og lýðveldishátíð var haldin á Þingvöllum. Þangað fylktu landsmenn liði og er talið að á bilinu 25-30 þúsund manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum. Einn af dagskrárliðum lýðveldishátíðarinnar var fánahylling. Mikil fánastöng hafði verið reist á hátíðarsvæðinu og drógu skátar stærðarinnar fána að húni þar.

Fáninn er líklega stærsti fáni landsins, 4 x 5,85 m að stærð, sem þýðir að hann er rúmir 23 fermetrar að flatarmáli. Með einhverjum ráðum tókst Helga S. Jónssyni að fá fánann til Keflavíkur strax að aflokum hátíðarhöldum 1944. Honum var flaggað í skrúðgarðinum þann 17. júní ár hvert frá 1945 til 1973. Þá var fánanum skipt út fyrir nýjan. Þessi fáni er varðveittur í Byggðasafni Reykjanesbæjar og verður sýndur í Bíósal Duus safnahúsa frá 17. júní til 18. ágúst. Á þjóðhátíðardaginn verður ókeypis aðgangur á sýninguna og gestum boðið upp á kaffi og kleinur á meðan birgðir endast.

Gleðilega þjóðhátíð!