Reykjanesbær hleypti af stokkunum viðamiklu samfélagsverkefni undir heitinu Allir með! í september 2020. Reykjanesbær er fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta og menningarstarf. Börnin eru mikilvægust og ávallt skal unnið að vellíðan íbúa. Rík áhersla er lögð á að öllum börnum líði vel og að vinátta vaxi í gegnum leik og jákvæð samskipti.
Allir með! stuðlar að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu. Lagt er upp með að öll börn séu í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að allir sem starfa með börnum vinni að vellíðan þeirra með skipulögðum hætti.
Verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu og Ungmennafélagi Íslands.
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn
Allir með! miðar að því að styrkja og styðja þorpið sem kemur að því að ala upp börnin sem þar búa. Vellíðan íbúa spilar þar lykilatriði og er unnið að því að auka lífsgæði og jákvæð samskipti með markvissum hætti. Jákvætt viðmót skal vera ráðandi í öllu starfi með börnum. Með það fyrir augum fá umsjónarkennarar 5., 6. og 7. bekkjar í öllum sjö grunnskólum Reykjanesbæjar, kennarar nemenda með annað móðurmál en íslensku, forstöðumenn frístundaheimila fyrir nemendur í 1. til 4. bekk og lykilþjálfarar aðildarfélaga UMFÍ hagnýt námskeið til þess að styrkja jákvæð samskipti og stuðla að félagslegri vellíðan barna. Að auki verða vinnustofur fyrir alla þá sem starfa með grunnskólabörnum í Reykjanesbæ, hvort sem þeir starfa hjá sveitarfélaginu eða ekki.
Ungmennafélögin tvö í Reykjanesbæ, Keflavík og UMFN hafa yfirumsjón með verkefnastjórn, tölfræðiupplýsingum og kynningu á íþrótta- og tómstundastarfi.
KVAN er fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í því að styðja fólk til að ná að virkja þann kraft sem í þeim býr og veita þeim aðgengi að styrkleikum sínum. KVAN hefur unnið mikið með vináttuþjálfun barna og fjallað um mikilvægi þess að tilheyra samfélaginu. KVAN mun sjá um fræðslu og menntun allra sem koma að barnastarfi í Reykjanesbæ.
Jafningjafræðsla og leiðtogaþjálfun
Jákvæðir leiðtogar hrósa, aðstoða og fá aðra með sér í að gera jákvæða hluti. Af þeirri ástæðu munu nemendur 9. bekkjar í öllum sjö grunnskólum sveitarfélagsins fá leiðtogafræðslu- og þjálfun í janúar 2021. Vanda Sigurgeirsdóttir frá KVAN mun sjá um leiðtogafræðsluna í samstarfi við söngkonuna Sölku Sól Eyfeld. Nemendunum verður í framhaldinu gefinn kostur á að gerast leiðtogar fyrir yngri nemendur og vera þeim jákvæð fyrirmynd.
Allir með! sáttmálinn
Samhliða verkefninu hefur Reykjanesbær birt Allir með! sáttmála sem stuðlar að ábyrgð allra samfélagsþegna gagnvart samfélagi þar sem jákvæð samskipti og vellíðan íbúa eru í fyrirrúmi. Með því að efla alla bæjarbúa til þess að styðja við börn og rækta náungakærleikann er verkefnið sett í stærra samhengi. Bæjarbúar eiga þess kost að skrifa undir samfélagssáttmálann rafrænt á vefsíðu Reykjanesbæjar.
Skrifa undir sáttmálann
Mælanleiki verkefnisins
Í október 2020 voru 3.180 börn á aldrinum 6 til 18 ára í Reykjanesbæ, 13% þeirra hafði erlent ríkisfang eða um 430 börn. Hvatagreiðslur eru niðurgreiðslur til foreldra á viðurkenndu íþrótta-, tómstunda- og listgreinastarfi. Um miðjan nóvember 2020 höfðu verið greiddar hvatagreiðslur til foreldra um helmings barna (49%) í heildina en aðeins vegna 21% barna með erlent ríkisfang. Hvatagreiðslur eru í 94% tilvika greiddar til foreldra barna með íslenskt ríkisfang og í um 6% tilvika til foreldra barna með erlent ríkisfang. Mynd 1 sýnir hvernig dreifing hvatagreiðslna er út frá aldri og ríkisfangi.
Í gegnum Allir með! verkefnið er stefnt að því að hækka nýtingu hvatagreiðslna í 65% á heildina fyrir lok árs 2021 og að nýtingin endurspegli barnahóp Reykjanesbæjar, þ.e. að þau sé greidd jafnt til foreldra drengja og stúlkna og jafnt til þeirra sem hafa íslenskt eða erlent ríkisfang.
Til þess að skoða enn frekar virkni barna í Reykjanesbæ hafa verið teknar saman tölulegar upplýsingar um þátttöku í barnastarfi í sveitarfélögunum út frá aldri og kyni. Í þeim tölum eru sum börn talin oftar en einu sinni, þ.e. þau sem taka þátt í fleiri en einni tómstund. Þjálfarar og leiðtogar í barnastarfi voru fengnir til þess að greina sinn þátttakendahóp út frá aldri og uppruna. Óskað var eftir upplýsingum um þá sem áttu foreldra sem væru innflytjendur og hefðu fæðst erlendis, eftir því sem þjálfarar og leiðtogar best vissu. Það var því ekki óskað eftir ríkisfangi barna.
Á mynd 2 má sjá að heildarþátttakan telur 2.760 börn og eru tæp 8% þeirra af erlendum uppruna. Reykjanesbær mun halda áfram að greina tölulegar upplýsingar um þátttöku barna og er gert ráð fyrir gagnasöfnun sem þessari í febrúar og október ár hvert, hér eftir.
Mynd 1. Hvatagreiðslur í Reykjanesbæ til foreldra barna á aldrinum 6-18 ára eftir kyni og uppruna.
Mynd 2. Fjöldi og hlutfall þátttakenda í íþróttum, tómstundum og listgreinum í Reykjensbæ