Við viljum þig með!

Fimleikaiðkandi
Fimleikaiðkandi

Reykjanesbær frumsýnir í dag hátt í 30 kynningarmyndbönd sem sýnir allt íþrótta-, æskulýðs og tómstundastarf sem er í boði fyrir börn sem búa í sveitarfélaginu. Myndböndin eru hluti af viðamiklu samfélagsverkefni sem ber heitið Allir með! Vinna við myndböndin hófst í september 2020 þegar verkefninu var hleypt af stokkunum.

Myndböndin verða vistuð á glænýjum frístundavef allra sveitarfélaga á Suðurnesjum, þar sem nánari upplýsingar um allt frístundastarf er að finna.

Allir með! stuðlar að jöfnum tækifærum barna til þess að tilheyra samfélaginu. Reykjanesbær leggur áherslu á að öll börn fái tækifæri til þátttöku í skipulögðu íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi. Allir með! stuðlar enn frekar að því að öllu barnastarfi sé stýrt af jákvæðum og sterkum fullorðnum leiðtogum sem vinni að vellíðan barnanna með skipulögðum hætti. Reykjanesbær hefur því boðið þjálfurum á hagnýt námskeið til þess að styrkja jákvæð samskipti og stuðla að félagslegri vellíðan barna.

Verkefni af þessu tagi hefur sjaldan verið mikilvægara því þátttaka barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur minnkað mikið eftir að Covid-19 hófst. Reykjanesbær vill vinna gegn brottfalli barna úr slíku starfi og hvetur alla til þess að kynna sér það fjölbreytta barnastarf sem í boði er í sveitarfélaginu.

Gerðir voru samstarfssamningar við ungmennafélögin tvö í sveitarfélaginu Keflavík og UMFN og hafa þau unnið að þessum myndböndum í samvinnu við Alpha Agency, stafræna auglýsingastofu sem starfrækt er í Reykjanesbæ. Reykjanesbær þakkar ungmennafélögunum og auglýsingastofunni vel unnin störf og þann metnað sem þau lögðu í verkefnið.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Samhliða verkefninu hefur Reykjanesbær birt Allir með! sáttmála em stuðlar að ábyrgð allra samfélagsþegna gagnvart samfélagi þar sem jákvæð samskipti og vellíðan íbúa eru í fyrirrúmi. Með því að efla alla bæjarbúa til þess að styðja við börn og rækta náungakærleikann er verkefnið sett í stærra samhengi. Bæjarbúar eiga þess kost að skrifa undir samfélagssáttmálann rafrænt á vefsíðu Reykjanesbæjar. Við hvetjum alla íbúa til að sýna samstöðu og skrifa undir.

SKRIFA UNDIR SÁTTMÁLANN

Verkefnið er styrkt af félagsmálaráðuneytinu.