Bókasafn Reykjanesbæjar opnar í Hljómahöll í byrjun apríl

Hnokkadeildin í nýja bókasafninu í Hljómahöll
Hnokkadeildin í nýja bókasafninu í Hljómahöll

Undirbúningur fyrir flutninga Bókasafns Reykjanesbæjar í ný húsakynni hefur staðið yfir síðastliðna mánuði. Bókasafnið hefur verið til húsa á Tjarnargötu 12 ásamt Ráðhúsi Reykjanesbæjar frá 2013 en glæsilegt uppfært safn mun opna á nýjum stað í Hljómahöll í byrjun apríl og deila húsnæði með Rokksafni Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ásamt því viðburðahaldi sem fylgir Stapa og Bergi.

Endurbætt safn í hjarta bæjarins
Hönnun bókasafnsins hefur verið í höndum ASK arkitekta en áherslan hefur verið á að uppfæra safnið til nútímans og það að verði einskonar menningarmiðja sveitarfélagsins eins og kemur fram í framtíðarsýn safnsins.

„Ýmis tækifæri skapast á nýjum stað en þar höfum við úr fjölbreyttari rýmum að velja og getum þá boðið upp á meiri þjónustu og betri aðstöðu fyrir viðburðina okkar sem eru alltaf að vaxa og vinsældir að aukast,“ segir Guðný Kristín Bjarnadóttir starfandi forstöðumaður bókasafnsins. „Við erum mjög spennt fyrir þessum breytingum og höfum vandað vel til verka síðastliðna mánuði til að nýta húsnæðið sem best með öðrum íbúum hússins og skapa andrúmsloft og aðstöðu sem nýtist íbúum sveitarfélagsins. Við erum auðvitað að þjónusta alla íbúa sem er mjög fjölbreyttur hópur og við leggjum okkur fram við að þjónusta hvern aldurshóp sem best og koma til móts við þeirra þarfir.“

Bókasafnið mun deila rými með Rokksafninu á fyrstu hæð hússins en verður jafnframt með þrjú aðskilin rými á annarri hæð, hnokkadeild, barnadeild og ungmennadeild . „Það verður mjög gaman að sjá hvernig mun takast til þegar horft er til sambúðarinnar við t.a.m. tónlistarskólann. Ungmennadeildin mun t.d. flæða inn á biðsvæði nemenda tónlistarskólans sem við vonumst til að spili vel saman þar sem nemendur geta gluggað í bækur þegar beðið er eftir því að fara inn í tíma,“ bætir Guðný við. Við erum líka mjög spennt fyrir stærri hnokka- og barnadeild þar sem öll aðstaða verður mun betri en verið hefur síðustu ár.

Bætt þjónusta á nýjum stað
Opnunartími bókasafnsins mun aukast á nýjum stað og verður opið bæði laugardaga og sunnudaga allt árið um kring en nákvæmari tímasetningar verða kynntar þegar nær dregur opnun. „Það er mjög gleðilegt að geta bætt þjónustuna við íbúa með því að lengja opnunartíma og hafa einnig opið á sumrin.

Áhersla á gagnvirkni og upplifun í gegnum persónulegar sögur í Rokksafninu
Rokksafn Íslands mun taka á sig nýja mynd við þessar breytingar. Svæðið sem Rokksafnið hefur verið á hingað til fer að hluta til undir bókasafnið og sýningin hliðrast því til í húsinu. Samhliða verður hún endurnýjuð og meiri áhersla lögð á gagnvirkni og upplifun gesta.

Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallar segir að töluverðar breytingar verði gerðar á safninu. „Við erum á þeim stað núna að velja okkur samstarfsaðila við handritsgerð og sýningarhönnun nýrrar sýningar. Væntingar okkar eru að sýningin verði gagnvirkari og innihaldi fleiri muni úr tónlistarsögunni. Áherslan verður ekki einungis á tónlistarsöguna heldur einnig á það hvernig íbúar upplifðu tónlistina í gegnum tíðina, auk persónulegra frásagna frá tónlistarfólki og öðrum sem starfa í tónlistargeiranum. Sýningin kemur til með að byggja að hluta til á myndbandsviðtölum, bæði við þá sem fluttu tónlistina og þá sem nutu hennar.“

Þegar Bókasafn Reykjanesbæjar opnar í Hljómahöll í vor mun upphaflega sýningin sem opnuð var árið 2014 standa áfram að hluta til á meðan unnið er hönnun og uppsetningu nýrrar sýningar. Gert er ráð fyrir að nýja sýning Rokksafnsins opni vormánuðum 2026.

Aðgengi meðan á flutningum stendur
Þessa dagana standa yfir framkvæmdir á húsnæði Hljómahallar til að gera það klárt svo bókasafnið getið komið sér þar fyrir. Bókasafnið mun loka á Tjarnargötunni 7 febrúar og opna svo í Hljómahöllinni í byrjun apríl. Á meðan aðalsafnið er lokað geta íbúar nýtt sér nýtt og glæsilegt bókasafn í Stapaskóla sem mun opna fyrir almenning þann 31. janúar næstkomandi. Þá lokaði Rokksafnið fyrir gesti 15. janúar og mun opna aftur samhliða opnun bókasafnsins í byrjun apríl.

Tímamót og tækifæri í menningarlífi Reykjanesbæjar
Þessar breytingar marka tímamót fyrir menningarlífið í Reykjanesbæ og opna dyr fyrir aukið samstarf og sterkari heild þeirra sem deila húsnæði í Hljómahöll. Reykjanesbær hefur um langt skeið verið þekktur fyrir sinn menningararf og sambúð þessara aðila sem eru svona stór hluti af menningarlífi sveitarfélagsins býður upp á ný tækifæri bæði til skapandi samstarfs og nýsköpunar en einnig bætta þjónustu fyrir íbúa.

Myndin hér fyrir ofan er að barnadeildinni

Tröppur og skemmtilegt leik- og lessvæði í hnokkadeildinni

Yfirlitsmynd frá unglingadeildinni á annari hæð

Verkstæðið á fyrstu hæð