Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík þessa vikuna, dagana 11.–16. nóvember 2024. Mótið, sem haldið er af Massa, lyftingardeild Njarðvíkur, í samstarfi við Kraftlyftingasamband Íslands, er í fyrsta sinn haldið á Íslandi. Viðburðurinn er jafnframt úrtökumót fyrir World Games 2025 sem fer fram í Kína og gefur íslenskum keppendum tækifæri til að taka þátt í kraftlyftingum á heimsmælikvarða á heimavelli.
Undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið hefur staðið yfir í langan tíma og hófst formlega með undirritun samnings á Reykjavík International Games í janúar 2024. Frá þeim tíma hefur stjórn Massa, ásamt fjölmörgum sjálfboðaliðum, lagt hart að sér við að skapa aðstöðu og umgjörð sem hæfir slíkum stórviðburði.
Þetta er einstakt tækifæri fyrir kraftlyftingaáhugafólk í Reykjanesbæ og á öllu Íslandi til að fylgjast með sterkustu lyftingamönnum heims keppa í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Við hvetjum alla áhugasama til að mæta í Ljónagryfjuna og upplifa einstakan viðburð!