Fulltrúar ÖBÍ og notendaráðs málefna fatlaðra heimsóttu bæjarstjóra og fulltrúa velferðarsviðs Reykjanesbæjar

ÖBÍ, heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi, hafa skipulagt heimsóknir til sveitarfélaga landsins til að ræða málefni fatlaðs fólks. Í heimsókn sinni til Reykjanesbæjar sátu með fulltrúum ÖBÍ einnig fulltrúar í notendaráði fatlaðs fólks í Reykjanesbæ. Á fundinum voru m.a. rædd áhrif nýrra laga um breytingar á örorku-og endurhæfingarlífeyri sem taka gildi 1. september 2025 og áhrif þeirra á mögulega atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu til þátttöku á vinnumarkaði. Velt var upp spurningum um hvort og þá hvernig vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum væri að undirbúa sig fyrir þá breytingu með því m.a. að geta boðið upp á fleiri hlutastörf. Eitt af markmiðunum með breytingunum á lögunum er að gefa fleiri tækifæri til virkni og þátttöku á vinnumarkaði og mikil áhersla almennt lögð á að efla virkni og að bæta lífsgæði fólks. Eins voru aðgengismál rædd með hliðsjón af Aðgengi fyrir alla þar sem lögð er áhersla á að bæta aðgengi fatlaðs fólks og um leið bæta aðgangi fyrir alla íbúa að byggingum, umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptatækni. Í lok fundarins var lögð áhersla á að halda notendasamráði opnu, halda tengslum og taka samtal um það sem brennur á á hverjum tíma og þar skiptir samráð við notendaráð fatlaðra miklu máli og aðkoma þeirra að málefnum sem snerta lífsgæði íbúa þ.m.t. skipulagsmálum sveitarfélaga.