Nýr leikskóli hefur opnað í Hlíðarhverfi í Reykjanesbæ og ber nafnið Asparlaut og var hann hannaður af JeES arkitektum. Leikskólinn tekur við af Heilsuleikskólanum Garðaseli sem hefur verið starfræktur í 50 ár, allt frá því um mánaðarmótin maí og júní árið 1974.
Garðasel á sér merkilega sögu. Hann var gefinn til Keflavíkur af sænsku barnasamtökunum Reddabarnet í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum. Nú heldur sú saga áfram á nýjum stað á Asparlaut.
Í Asparlautinni er gert ráð fyrir allt að 120 börnum í sex deildum sem bera fallegu nöfnin Sól, Sunna, Tungl, Máni, Stjarna og Geisli. Þetta er töluverð stækkun frá fyrra húsnæði Garðasels, þar sem pláss var fyrir um 94 börn.
Flutningarnir yfir í nýja húsnæðið gengu einstaklega vel. Börnin fengu að skoða skólann áður en þau fluttu og voru því vel undirbúin þegar þau mættu í nýtt og spennandi umhverfi. Skólastarf hófst með gleði og tilhlökkun og starfsfólkið lýsir nýja leikskólanum sem þeim fallegasta á landinu.
„Starfsemi skólans mun batna til muna með betri hljóðvist, lýsingu og loftgæðum,“ segir Ingibjörg Guðjónsdóttir leikskólastjóri. Hún bætir við að það sé dýrmætt að fá að taka þátt í slíku verkefni og koma sínum hugmyndum og óskum að við hönnun leikskólans. „Við erum þakklátar fyrir að fá að hafa áhrif á leikskólaþróun í bænum okkar.“ Aðstaða starfsfólks er einnig glæsileg og mætir nú betur þörfum þess í daglegu starfi.
Við erum ótrúlega ánægð með þessa fallegu viðbót inn í fjölbreyttu menntastofnanir bæjarins!

Ingibjörg Guðjónsdóttir, leikskólastjóri og B. Sif Stefánsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri.
Hægt er að skoða fleiri myndir á facebook síðu Reykjanesbæjar.