Tilfærsla á grenndarstöð við Geirdal í Innri Njarðvík

Grenndarstöðvar taka við endurvinnsluefni frá heimilum og eru þær sex talsins innan Reykjanesbæjar. Á þeim öllum er tekið á móti málmum, gleri, pappír / pappa og plastumbúðum. Þegar flokkun á grenndarstöðvum er góð og endurvinnsluefnin hrein greiðir Úrvinnslusjóður sérstakt úrvinnslugjald fyrir þessa flokka. Gjald þetta er hugsað til þess að lækka kostnað íbúa við meðhöndlun úrgangs en til þess að það sé hægt þarf umgengni og flokkun að vera til fyrirmyndar.

Því miður hefur umgengni við grenndarstöðina í Geirdal verið mjög slæm í töluverðan tíma og mikið af úrgangi hent út þar sem ekki á heima á grenndarstöðvum. Þetta þýðir að Reykjanesbær þarf að leggja fram mannskap við hreinsun og greiða fyrir viðeigandi meðhöndlun úrgangsins. Lögum samkvæmt ber okkur að rukka allan kostnað við meðhöndlun úrgangs frá íbúum og því veltist þessi kostnaður beint yfir á íbúa alla.

Vegna þessa verður grenndarstöðin við Geirdal nú færð tímabundið við Dalsbraut, á plan fyrir framan Stapaskóla, sjá nánar á korti hér að neðan. Er það von okkar að íbúar allir sameinist um að ganga betur um grenndarstöðvarnar okkar og hjálpast að við að halda bænum okkar snyrtilegum, fyrir okkur öll.

Íbúum er bent á að farvegur fyrir annan úrgang en þann sem safnað er á grenndarstöðvunum í sveitarfélaginu er að finna á móttökuplaninu hjá Kölku. Einnig viljum við minna á að margar vörur bera með sér úrvinnslugjald þegar þær eru keyptar sem þýðir að þegar komið er að því að farga þeim er búið að greiða gjald fyrir meðhöndlun og því gjaldfrjálst að skila þeim af sér á næstu móttökustöð. Hér má sjá gjaldskrá Kölku þar sem hægt er að sjá nánar hvaða flokkar þetta eru sem eru gjaldfrjálsir.