Friðheimar sem er móttökudeild fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd fagnaði eins árs afmæli sínu þann 21. október. Friðheimar eru í húsnæði við hlið Háaleitisskóla í Reykjanesbæ en verkefnið er unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun. Makmiðið er að veita börnunum stuðning við að aðlagast íslensku skólakerfi og viðeigandi aðstoð svo að skólaganga þeirra verði sem farsælust.
Í Friðheimum fá nemendur einstaklingsmiðaða aðstoð þar sem áhersla er lögð á íslensku, stærðfræði, lífsleikni, íþróttir, sund og list- og verkgreinar. Nemendur fá sinn umsjónarkennara sem aðstoðar þá við að fóta sig fyrstu dagana í nýju landi og sér svo síðar um yfirfærslu nemandans yfir í hverfisskólann sinn ásamt því að fylgja þeim eftir og vera í sambandi við nýjan umsjónarkennara. Skólinn leggur einnig mikla áherslu á foreldrafræðslu og býður þeim reglulega á námskeið til að kynna starfsemi skólans, íslenska menningu og mikilvægi samverustunda foreldra og barna. Foreldrafræðslan er einnig einstaklingsmiðuð þegar það á við, til að mæta þörfum hvers og eins.
Til að stuðla að jákvæðri aðlögun er fjölbreytileiki nemendahópsins sýnilegur í skólanum og skólastofunni. Með því að sýna tungumáli og menningu barnanna virðingu eflir skólinn tengsl við þeirra eigin menningarlega bakgrunn. Þetta er gert með ýmsum hætti, eins og að setja upp á vegg spjöld með kveðjum á öllum tungumálum, hafa þjóðfána allra nemenda uppi á vegg eða merkja á heimskort öll þau lönd sem nemendur koma frá.
Síðastliðið ár hafa um 140 börn notið stuðnings í Friðheimum en núna eru um 50 nemendur í deildinni og eru börnin þar að jafnaði í 4-9 mánuði. Friðheimar eru í stöðugri þróun og aðlaga þau starfsemi sína vikulega að þörfum barnanna sem koma á mismunandi tímum yfir skólaárið úr oft mjög erfiðum aðstæðum og hafa sum hver verið á flótta allt sitt líf.
Eva Björk Sveinsdóttir deildarstjóri Friðheima segir að með þessu fyrirkomulagi komi börnin öruggari inn í skólakerfið. „Nemendur byrja í rólegra umhverfi, læra grunn orðaforða, fara á sundnámskeið og fá kynningu á íslensku skólakerfi áður en þeir fara inn í bekk. Þetta hjálpar líka kennurum við allt skipulag þar sem þeir fá að vita með góðum fyrirvara að nýr nemandi er að bætast í hópinn.“
Það hefur sýnt sig að Friðheimar eru góð viðbót við skólaumhverfið í Reykjanebæ og gegnir afar mikilvægu hlutverki við að undirbúa grunnskólabörn fyrir skólagöngu og skapa hlýlegan vettvang er þau hefja nýtt líf í ókunnugu samfélagi.