Mottumars í Vatnaveröld - frítt í sund

Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá körlum. Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar vill leggja málefninu lið og vekja þannig athygli á mikilvægi þess.

Af þessu tilefni viljum við bjóða íbúum Reykjanesbæjar frítt í sund fimmtudaginn 30. mars og skemmtilega dagskrá í Vatnaveröld frá kl. 16:00 til 18:30 sama dag.

  • Kjörnir fulltrúar lýðheilsuráðs hræra í vöfflur. Sala á vöfflunum er til styrktar Mottumars
  • Ráðgjafi frá Krabbameinsfélagsins verður á staðnum með fróðleik og leiðbeiningar fyrir bæjarbúa.
  • Ungur Reykjanesbæingur mun koma og segja frá reynslu sinni af því að greinast með krabbamein
  • Klukkan 17.30 mun Valdimar Guðmundsson ásamt meðspilara spila nokkur lög fyrir gesti.

Ekki humma fram af þér heilsuna.

Á heimasíðu Mottumars kemur fram að þriðji hver karlmaður greinist með krabbamein á einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni. Samkvæmt tölfræðilegri samantekt frá árunum 2017 – 2021 greindust 892 karlmenn árlega á Íslandi með krabbamein og á sama tímabili létust 317 karlmenn árlega úr krabbameini.

Nýleg rannsókn Krabbameinsfélagsins leiddi í ljós að almennt leituðu karlar seinna til læknis en konur. Hátt í helmingur karla sem síðar greindust með krabbamein biðu í þrjá mánuði eða lengur með að fara í skimun. Alls 14% karlmanna biðu í meira en ár frá því að einkenna varð vart og þar til þeir leituðu læknis. Nauðsynlegt er að taka höndum saman í vitundarvakningu um krabbamein hjá karlmönnum og um leið afla fjár fyrir mikilvæga starfsemi Krabbameinsfélagsins.


Við hvetjum íbúa Reykjanesbæjar að koma í sund með okkur, hugsa um heilsuna og fræðast um krabbamein.


Með baráttukveðju frá Lýðheilsuráði Reykjanesbæjar

Hér er Facebook síða fyrir þennan viðburð: