Ólafur Bergur Ólafsson, Umsjónarmaður ungmennaráðs, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins, Svala Rún Magnúsdóttir, Aðstoðarforstöðumaður Fjörheima og Betsý Ásta Stefánsdóttir, Frístundaleiðbeinandi.
Ungmennaráð Reykjanesbæjar stóð fyrir vel heppnuðu ungmennaþingi í síðustu viku, en þetta er í þriðja sinn sem slíkt þing er haldið í bænum. Ungmennaráðið hefur unnið hörðum höndum að undirbúningi frá því í september í fyrra og voru þau því búin að hlakka mikið til dagsins.
Um tuttugu nemendur úr 8.–10. bekk úr öllum grunnskólum Reykjanesbæjar tóku þátt í þinginu að þessu sinni. Meðlimir ungmennaráðsins leiddu umræðurnar við hvert borð og sköpuðu þannig öruggt og skapandi rými fyrir skoðanaskipti og hugmyndavinnu.
Þema þingsins í ár var öryggi. Fjallað var meðal annars um öryggi í samskiptum, á netinu, í skólanum, í tómstundum og í nærumhverfinu. Þátttakendur ræddu reynslu sína, bentu á áskoranir og komu með hugmyndir að lausnum, með það að markmiði að gera samfélagið okkar betra og öruggara fyrir alla.
Í ár var þingið haldið skjálaust, sem þýðir að öll vinnan fór fram á blaði. Hugmyndir voru skráðar niður, ræddar og síðan kosið um þær hugmyndir sem þátttakendur töldu mikilvægastar.
Reynslan sýnir að rödd unga fólksins skiptir máli. Niðurstöður fyrri þinga hafa verið teknar alvarlega og haft raunveruleg áhrif. Ungmennaráðið vonar að það sama eigi eftir að gilda um hugmyndir og ábendingar þessa árs.
Við hjá Reykjanesbæ erum ótrúlega stolt af þessum kraftmikla og hugmyndaríka hópi ungmenna. Þau sýna í verki hvað röddin þeirra getur haft mikil áhrif þegar hún fær rými og tækifæri til að láta í sér heyra. Það er innblástur að sjá áhugann og drifkraftinn sem þessi hópur hefur og hversu mikið þeim er annt um samfélagið sitt. Framtíðin er sannarlega björt með svona leiðtoga í mótun!

Hægt er að skoða fleiri myndir á facebook síðu Reykjanesbæjar.